Á fimmta þúsund manns útskrifast af 20 brautum
Afmælisfjör í Keili sem fagnar 15 ára afmæli
Það var sannkölluð afmælisstemmning í höfuðstöðvum Keilis á Ásbrú í tilefni 15 ára afmæli miðstöðvarinnar síðasta laugardag. Mikil þróun hefur orðið á námsframboði Keilis síðustu ár og í dag eru fjórir skólar með fjölbreyttar námsleiðir starfandi undir Keili: Háskólabrú, Heilsuakademía, Flugakademía Íslands og Menntaskólinn á Ásbrú.
Að sögn Alexöndru Tómasdóttur, markaðsstjóra Keilis, hefur frá árinu 2007 rúmlega 4300 manns útskrifast af tuttugu brautum frá Keili og í dag eru núverandi nemendur á annað þúsund í skólum Keilis.
Á laugardaginn nutu gestir á öllum aldri veitinga, fóru í prufumeðferð í fótaaðgerðafræði, flugu í flughermum, skoðuðu og prófuðu aðbúnað einka- og styrktarþjálfunar, leiðsögunáms og vinnuverndarskólans. Einnig var hægt að prófa tölvuleiki nemenda Menntaskólans í Ásbrú sem og versla og gæða sér á vöfflum nemendafélagsins sem safna fyrir útskriftarferð. Fyrsti nemendahópur MÁ hóf nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð og er áætluð útskrift þessa hóps í vor.
Gestir gátu einnig hlustað á stuttar kynningar námsleiða Keilis, skoðað og notið nútímalegrar aðstöðu skólans.
Mikil aðsókn hefur verið í nám frá Keili og er opið fyrir umsóknir fyrir haustönn í Háskólabrú, Einka- og styrktarþjálfun, leiðsögunám og flugnám.
Eini sem býður atvinnuflugnám
Flugakademía Íslands er eini skóli landsins sem býður upp á atvinnuflugnám og hafa í gegnum tíðina nemendur víða að úr heiminum komið og sótt skólann og notið þess að fljúga í fjölbreyttri og stórkostlegri náttúru Íslands. Þar er einnig í boði að taka einkaflugnám og fjölbreytt námskeið fyrir flugmenn og kennara.
Margir í háskólbrú
Háskólabrú hefur löngum verið þekkt og hjálpað mörgum að koma sér af stað aftur í nám og skilað fólki á betri stað á atvinnumarkaðnum eða í háskóla fullt sjálftrausts. Háskólabrú býður upp á staðnám, fjarnám, nám með vinnu og með undirbúningi.
Heilsuakademía er með nám í ÍAK einka- og styrktarþhálfun, fótaaðgerðafræði, Adventure Guide Certificate, ýmisleg vinnuverndarnámskeið og einnig afar vinsælt undirbúningsnámskeið fyrir inntökupróf læknadeildar HÍ.
Tölvuleikjanám vekur lukku
Menntaskólinn á Ásbrú býður uppá stúdentspróf í tölvuleikjagerð og hefur námsfyrirkomulag og nálgun vakið mikla lukku. Áhersla er á hagnýt verkefni með sterkum tengslum við atvinnulífið og nútíma kennsluhætti. Kennsla fer fram í lotum og taka nemendur yfirleitt einungis um 3 áfanga í einu, engin skrifleg lokapróf, heldur notast við símat. Því er gerð krafa um góða virkni í áföngum og verkefnaskil eru vikulega. Fyrir utan almenna kjarnagreinar taka nemendur áfanga í forritun, tölvuleikjagerð, markmiðlum, markaðsfræði, teikningu, ljósmyndun og listfræði, svo eitthvað sé nefnt.
Þurfum skapandi einstaklinga í tölvuleikjagerðina
„Menntaskólinn á Ásbrú er menntaskóli sem býður upp á stúdentspróf í tölvuleikjagerð, sem er einstakt á Íslandi. Við erum með 85 nemendur og erum að kenna tölvuleikjagerð, markaðssetningu, frumkvöðlafræði, forritun, stærðfræði, ensku, íslensku og allar hefðbundnar stúdentsprófsgreinar,“ segir Ingigerður Sæmundsdóttir, forstöðumaður Menntaskólans á Ásbrú, um skólann sem hún veitir forstöðu. Hún segir Menntaskólann á Ásbrú lítinn og skemmtilegan framhaldsskóla sem hefur aukið í menntaskólaflóruna á Íslandi.
„Við erum að útskrifa fyrsta hópinn 27. maí en það útskrifaðist einn nemandi hjá okkur á síðustu önn, stúlka úr Reykjanesbæ sem náði að klára á fimm önnum. Við erum með sérstakt nám en við erum með vendikennslu sem þýðir að krakkarnir fá allt námsefnið heim. Kennararnir taka upp fyrirlestra og lesa inn námsefnið og síðan koma nemendur í skólann og vinna verkefni undir handleiðslu kennara. Nemendur eru þrjár klukkustundir í senn í hverju fagi og námið er lotubundið, þannig að við erum tvisvar sinnum átta vikur á hverri önn og þau eru í þremur til fjórum fögum hverju sinni. Nemendur eru mjög ánægðir með þetta fyrirkomulag að geta sökkt sér í hvern áfanga, tekið hann á átta vikum, lokið honum og hafið nýjan áfanga. Við erum ánægð með þetta fyrirkomulag. Það eru engir fyrirlestrar í kennslustundum en kennararnir eru samt að kenna. Það er mikill undirbúningur og kennsla í gangi,“ segir Ingigerður jafnframt.
„Skólastarfið gengur vel og nemendur eru mjög ánægðir. Það eru strax farnar að berast inn umsóknir um skólavist á næstu önn, þó svo ekki sé búið að opna fyrir umsóknir fyrir þá nemendur sem eru að koma úr 10. bekk grunnskóla.“
Ingigerður segir að það sé ekki bara forritun og stærðfræði sem þurfi í tölvuleikjagerð. „Við þurfum skapandi einstaklinga, við þurfum listafólk, fólk sem segir sögur og heimsspekiþenkjandi. Auðvitað er gott að kunna á tölvuleiki eða vera skapandi, við þurfum annað hvort.“
Tæplega 3000 nemendur lokið Háskólabrú
„Háskólabrú Keilis gengur vonum framar. Frá árinu 2007 hefur Háskólabrú verið starfandi hér hjá Keili og var fyrsta námsleiðin sem boðið var uppá. Háskólabrú byrjaði með staðnámi en nú erum við með þrjár mismunandi leiðir, staðnám, fullt fjarnám og fjarnám með vinnu. Það hafa tæplega 3000 nemendur útskrifast af þessari námsleið og það gengur bara ljómandi vel,“ segir Berglind Kristjánsdóttir, forstöðukona Háskólaseturs.
Þetta hefur verið vísir fyrir Suðurnesjamenn og aðra til að komast í háskólanám.
„Já. Það er inntökuviðmið á Háskólabrú og þú þarft að vera búinn með framhaldsskólaeiningar til að komast að. Þetta hefur verið viðbót við það nám sem fólk hefur lokið og getur þá komið hingað og klárað sitt nám á framhaldsskólastigi og farið svo í háskóla í framhaldi. Það eru 320 nemendur í námi hjá okkur núna og það hefur verið nokkuð stöðugt síðustu árin. Fólk getur valið um fjórar deildir hjá okkur og það eru um 40% nemenda sem velja Háskólabrú samhliða vinnu. Þetta hefur gert gríðarlega mikið fyrir svæðið og aðra á landsbyggðinni. Þá erum við líka með Íslendinga erlendis sem eru að stunda námið hjá Keili og hafa ekki kost á því að stunda svona nám í öðrum löndum og stunda námið í fjarnámi,“ segir Berglind.
Það eru alvöru flughermar hjá Fluakademíu Íslands í Keili.
Sólrún Þórðardóttir, snyrtifræðimeistari úr Hveragerði, er í námi í fótaaðgerðarfræði við Keili.
Heilsuakademía Keilis hefur verið vel sótt.